153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:11]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langaði að taka undir önnur orð hv. þingmanns varðandi að það sé mjög mikilvægt að málið gangi til nefndar. Til að bregðast við þessum orðum varðandi vinnu nefndarinnar þá langar mig kannski aðeins að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi góðar væntingar og vonir til þess að innan nefndarinnar geti farið fram góð umræða og náðst breiðari sátt um málið. Það sem við þingmenn sem fórum ekki í umrædda ferð höfum tekið úr henni og frásögnum af henni er að við stöndum frammi fyrir vanda sem nágrannaþjóðir okkar hafa e.t.v. gert fyrir nokkrum árum síðan og við viljum kannski læra af mistökum þeirra, m.a. með því að taka góða umræðu eins og við höfum gert hér í dag og mér heyrist hv. þingmaður vonast til að muni fara fram innan nefndarinnar. Það væri gott að heyra viðbrögð hennar við því.