153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að virða mig með andsvari sínu í þessu máli. Ég veit ekki alveg á hvaða ræðu hæstv. ráðherra var að hlusta en þessar breytingar sem verið er að gera sem eyðileggja þennan tímafrest, munu gera það að verkum að jafnvel þó að málsmeðferðin hafi tekið tvö til þrjú ár megi samt vísa viðkomandi úr landi. Málið klárast ekki. Það þýðir að engin pressa er á stjórnvöldum að klára málið innan 12 mánaða. Það er verið að lengja málsmeðferð. Hæstv. dómsmálaráðherra kristallar misskilninginn á bak við þetta frumvarp í lokaorðum sínum í andsvarinu sem er að þarna séu ráð til að fá fólk til að hypja sig úr landi. Vandinn er sá og reynsla annarra ríkja sýnir, við sáum það í Danmörku þegar við fórum í heimsókn þangað, að fólk mun ekki fara. Það mun ekki fara vegna þess að það kemur hingað af þeirri ástæðu að það telur sig vera í raunverulegri neyð. (Forseti hringir.) Það mun ekki fara þótt það missi 8.000 krónurnar á viku, þótt það missi þak yfir höfuðið vegna þess (Forseti hringir.) að einhvers staðar mun einhver grípa þig. Aðstæður hér eru betri en þeirra að bíða þeirra. Það mun ekki fara. (Forseti hringir.) Þess vegna mun fólki í neyð fjölga hérna.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina máli sínu til forseta og eins að virða ræðutíma.)