153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:13]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir síðara andsvar. Það er sannarlega verið að skerða réttindi fólks og ég ætla að fá að leiðrétta að það sé verið að færa reglur um endurteknar umsóknir og endurupptöku til þess horfs sem er í Evrópusambandinu. Það er sannarlega verið að færa reglur varðandi endurteknar umsóknir til samræmis reglum Evrópusambandsins en ekki réttinn til endurupptöku. Þar er verið að svipta fólk því sem er í raunverulegri neyð. Ný gögn hafa komið fram, nýjar upplýsingar eða eitthvað hefur breyst sem gerir að verkum að fólk á rétt á endurupptöku samkvæmt gildandi lögum. Það er verið að svipta fólk þessum rétti. Verið er að svipta fólk réttindum í raunverulegri neyð. Þá er verið að svipta fólk, sem hefur komið hingað sem kvótaflóttamenn, réttinum til fjölskyldusameiningar við maka. Er það ekki að svipta fólk í raunverulegri neyð réttindum? Ég átta mig bara ekki á því hvað hæstv. ráðherra er að tala um. Þá langar mig að benda á að það er óskaplega lítið í þessu frumvarpi sem snýr að tilhæfulausum umsóknum, það var afgreitt hér árið 2017, ef ég man rétt.