Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Orðspor Íslands skiptir öllu þegar kemur að efnahag ríkissjóðs og lánshæfismati sem og alþjóðlegum viðskiptum. Það er okkur mikilvægt að fá hingað til lands erlendar fjárfestingar enda markaðurinn smár og okkur nauðsynlegt að fá inn stærri aðila. Þegar erlendir fjárfestar hugleiða komu inn á markaðinn skoða þeir nokkra þætti; stöðugleika gjaldmiðils, stöðugleika í stjórnmálum, fjármálakerfið, virkt réttarkerfi og spillingarvarnir. Eins og fram hefur komið hafa fulltrúar nefndar OECD um mútur verið undrandi og áhyggjufullir yfir hægagangi rannsóknar á Samherjamálinu og meintum mútugreiðslum fulltrúa fyrirtækisins í Namibíu. Þetta eru skiljanlegar áhyggjur enda hafa á sama tíma borist fregnir af málarekstri, frystingu eigna og gæsluvarðhaldi samstarfsaðila meintra gerenda á vegum Samherja í Namibíu á meðan lítið hefur spurst til rannsóknar máls hér á landi. Sagði héraðssaksóknari á sínum tíma að hraði rannsóknar væri í beinu samhengi við það fjármagn sem stjórnvöld skammta embættinu, vanfjármögnun bitni einfaldlega á málshraða. Þegar Samherjamálið var opinberað í lok árs 2019 átti sér stað vinna á Alþingi við fjárlagafrumvarp ársins 2020. Við í Samfylkingunni lögðum til að aukið fjármagn yrði veitt til embættis héraðssaksóknara vegna þessa yfirgripsmikla alþjóðlega máls. Það þótti hæstv. fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins alveg fráleitt og sagði að ef embættið þyrfti frekari fjármuni þyrfti það bara að koma til sín með slíka bón, eins og eðlilegt væri að bónleiðin væri til formanns flokks sem óneitanlega tengist umræddu máli en ekki fjárveitingavaldsins sem er á Alþingi.

Frú forseti. Ég ber fullt traust til embættis héraðssaksóknara, svo að það sé sagt, en það er augljóslega vilji ríkisstjórnarinnar að embætti héraðssaksóknara sé áfram vanfjármagnað enda bitnar það á rannsókn málsins sem er samofið Sjálfstæðisflokknum. Þetta getur valdið orðsporsáhættu og þar af leiðandi beinu tjóni fyrir allan almenning á Íslandi.