Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

lögfræðiálit vegna ÍL-sjóðs.

[13:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Það er auðvitað sorglegt að stjórnarliðar hafi svona lítinn áhuga á þeirri hlið starfa sinna að sinna eftirlitshlutverki. Það er helmingurinn af starfi þingmanna, til hliðar við lagasetningu, að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Það er pínulítið átakanlegt að horfa á þingsalinn núna. Það er ekki einn þingmaður stjórnarflokkanna í salnum, ekki einn. Það er enginn sem stendur upp og segir: Nei, við þurfum ekki að hafa eftirlit með fjármálaráðherra þegar hann tekur ákvörðun um að setja ÍL-sjóð í gjaldþrotameðferð með tugmilljarða kostnaði sem lendir á almennum borgurum. Hér er enginn stjórnarliði til að standa fyrir því máli. En að sjálfsögðu á þessi vinna að fara fram í fjárlaganefnd.