Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir býsna skemmtilega umfjöllun og ræðu um þetta mál. Nú er hv. þingmaður í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og mig langar af því tilefni að spyrja aðeins út í fund með ríkisendurskoðanda í gær. Ýmsum hefur verið tíðrætt um, bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að svokölluð armslengd sé mikilvæg. Ég vil lesa hér af bls. 26 úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um bankasöluna, með leyfi forseta:

„Þótt ekki sé gert ráð fyrir aðkomu ráðherra að framkvæmd sölunnar ber hann engu að síður ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. Honum ber því að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga úr skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tekur ákvörðun um sölu.“

Var ríkisendurskoðandi spurður út í nákvæmlega þetta ferli, hvernig ráðherra undirbjó sig áður en hann tók ákvörðun um sölu með svona miklum afslætti eins og raun ber vitni til þeirra sem fengu að kaupa og þann hlut sem seldur var, þ.e. að selja ekki 20% eins og erlendu ráðgjafarnir lögðu til og ekki 25% eins og Íslandsbanki lagði til heldur 22,5% á genginu 117 til þessara aðila, eins og ríkisendurskoðandi segir hér að ráðherra verði að gera? Hvernig undirbjó ráðherra sig? Var hann spurður út í það hvort hann hefði haft einhverja ráðgjafa eða slíkt?