Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:59]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar sitt. Já, það að vera ungur í starfsendurhæfingu, það er ákaflega erfitt, ég get ímyndað mér það. Orðalag eins og þetta, að það sé enn raunhæft, að það standi einhvers staðar, ef þú bara gúglar eitthvað og skoðar eitthvað, að þá sé svolítið verið að segja að það sé ekki raunhæft lengur — við viljum passa að dæma ekki, sérstaklega ungt fólk en líka alla, einhvern veginn úr leik, að þau upplifi ekki: Já, ókei, ég er kominn hingað í lífinu, ég er ekki kominn út á vinnumarkað, ekki síðustu fimm árin, og þá er einhvern veginn búið bara svolítið að segja að ég sé ekki að fara þangað. Skilaboðin sem ég fæ frá samfélaginu eru þannig.

Þetta er það sem ég vil leggja áherslu á með þessu. Svo langar mig líka að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér í því að það þurfi rosalega mikið að efla starfsendurhæfingu og að starfsendurhæfing þurfi að vera miklu einstaklingsmiðaðri og í samráði við þann sem er verið að starfsendurhæfa. Það eru dæmi til þar sem fólk hefur ætlað að fara í starfsendurhæfingu en hefur verið sagt bara: Nei, veistu það, þú ert bara ekki endurhæfanleg eins og er. Fólk fer kannski, ungt fólk, út í lífið með þessi skilaboð. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að orðalag í lögum á þingi sé mjög ígrundað og vel hugsað og að við sendum þau skilaboð að þú megir alltaf koma út í atvinnulífið og þú sért alltaf velkominn inn á vinnumarkaðinn og við munum reyna að koma til móts við þig.

Þurfum við fleiri og fjölbreyttari úrræði í starfsendurhæfingu?