153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

sala Íslandsbanka og fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[15:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góðar spurningar og eins og ég sagði áðan þá er eðlilegt að spurt sé. Það er einhugur í ríkisstjórn um að halda sig við sín stefnumál. Það sem ég myndi segja og gæti tekið undir með hv. þingmanni að væri bagalegt, er að þetta tilboðsfyrirkomulag sem var valið, og því hefur kannski ekki verið haldið nægilega á lofti, var fyrst og fremst valið til þess að koma í veg fyrir að setja of mikla skekkju í eftirmarkaðinn. Það virðist hafa gengið upp. Ég held hins vegar að við þurfum að fara í saumana á þessu fyrirkomulagi áður en við ákveðum fyrirkomulagið sem verður notað í næstu atrennu inn á næsta ár. Ég held að það sé staðan núna en einhugur er í ríkisstjórn um að halda sig við þessa stefnu. Ég held að við verðum bara að bíða og anda með nefinu. Ég skil hvað hv. þingmaður er að koma inn á varðandi fjárlagagerð en það er einhugur í ríkisstjórn um að klára þetta mál. (Forseti hringir.) Við verðum að vanda okkur með næsta skref og velja rétt fyrirkomulag á lokahnykk þessarar sölu.