Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

almenn hegningarlög.

33. mál
[17:05]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt sem kom fram í máli hv. þingmanns en ég er þó málinu algjörlega ósammála og mun ekki styðja það á nokkurn hátt. Í grunninn erum við vissulega sammála um ýmsa fleti málefnisins, um skilgreiningar á að ofbeldi er eitt og kynlíf er annað. En ég held að það sé kannski grundvallarmunur á viðhorfi hv. þingmanns og mínu viðhorfi að því leyti til að í gegnum söguna, í gegnum tímann — auðvitað breytast tímarnir og mennirnir með og við þurfum alltaf að endurskoða lagabálka um hvað svo sem það er. Með þróun samfélaga þurfum við alltaf að endurskoða. En ég er ekki á því, þegar kemur að þeirri endurskoðun, að við eigum bara að fella brott greinar. Hv. þm. Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir er mjög vel máli farin og kemur málinu ákaflega vel frá sér en að mínu mati er það fullkomlega sturlað að bera þessa lagagrein saman við t.d. lagagrein um samkynhneigð og annað sem hefur verið breytt. Hér erum við að tala um iðnað. Við erum að tala um gríðarstóran iðnað sem byggir í raun ekki á því frelsi einstaklingsins sem aðrir hv. þingmenn tala mikið fyrir, heldur erum við að tala um iðnað sem byggir á rótgrónum hugmyndum um ójafnrétti kynjanna, um ofbeldi, um alls konar hluti.

Ég er alveg sammála því að við þurfum að endurskoða greinina. Ég kem betur inn á það í mínu síðara andsvari. En mig langar að spyrja hv. þingmann: Sama hvað er — það er margt bannað með lögum og lögin virðast ekki virka og ná utan um það — eigum við þá alltaf að fella lögin á brott? Er það alltaf lausnin?