Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

almenn hegningarlög.

33. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Jódísi Skúladóttur fyrir andsvarið. Ég vil byrja á að árétta samanburðinn, sem ég kom með hér áðan, varðandi ákvæði sem eru sett af siðferðislegum ástæðum. Þar er þetta sambærilegs eðlis, allt sem ég nefndi, vegna þess að ákvæðið sem er í almennum hegningarlögum hefur ekkert með kynlífsiðnaðinn að gera eða vernd fórnarlamba ofbeldis. Ég er spennt fyrir því að eiga samtal við hv. þingmann um aðrar hugsanlegar leiðir til þess að orða þetta í lögunum. Núgildandi ákvæði er að mínu mati með öllu ótækt. Það hafa verið farnar leiðir í öðrum ríkjum, t.d., eins og ég nefndi í ræðu minni, að skilgreina klám sem niðrandi eða annað slíkt. En þá komum við að því að það klám sem framleitt er með ofbeldi er ekkert alltaf þannig. Það er ekkert alltaf niðrandi eða ofbeldisfullt eða annað en samt eru forsendurnar á bak við það hræðilegar, ofbeldið sem þar er beitt og mansalið. Ég er alveg sannfærð um að þessi leið virkar ekkert, ég veit ekki til þess að þetta ákvæði hafi með neinum hætti komið í veg fyrir brot af því tagi nema síður sé. Ákvæðið kemur nefnilega í veg fyrir að þolendur leiti til lögreglu vegna þess að þau eru þátttakendur í þessari glæpastarfsemi.

Til að svara lokaspurningu hv. þingmanns, varðandi það hvort við eigum bara að afnema úr lögum allt sem er mögulega ekki besta lausnin, myndi ég frekar orða það þannig að við eigum að hætta að grípa til banns og refsingar þegar okkur dettur ekki neitt annað í hug. Þegar ég var t.d. að lesa hugmyndir fyrrum innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, flokksfélaga hv. þingmanns, um ýmsar leiðir til þess að minnka aðgengi fólks að klámi, kom þar fram t.d. að klám væri stundum eina kynfræðslan sem börn fengju. Þá kom upp í hugann hjá mér hvort bann af þessu tagi væri ekki svolítið dæmi þess (Forseti hringir.) að við værum reiðubúin að gera allt sem við getum til þess að þurfa ekki að ræða þessi mál við börnin okkar (Forseti hringir.) og ég velti fyrir mér: Þurfum við ekki að finna önnur úrræði? Erum við ekki komin út í horn (Forseti hringir.) þegar við erum farin að beita refsingum sem virka ekki?