Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

36. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég fæ enn einu sinni að flytja hér þingsályktunartillögu um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll en hún hefur verið flutt hér áður í allmörg skipti með smávegis breytingum inn á milli. Nú standa að þessari tillögu, ásamt þeim sem hér stendur, hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Guðbrandur Einarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

Tillagan felst í því að fela innviðaráðherra að skoða hvort á Hornafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi sem nú hafa heimild til þess að fljúga um völlinn. — Ferjuflug er einmitt flugvél sem verið er að færa á milli landa og þarf að millilenda hér út af auknu eldsneyti og öðru slíku.

Hornafjarðarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins. Mikilvægt er að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetning vallarins býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skoða hvort til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi.

Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Höfn að millilandaflugvöllum — og ég vil kannski taka fram að þessi þingsályktunartillaga tekur líka til Ísafjarðar og Vestmannaeyja. Þó að hér sé áhersla lögð á Hornafjarðarflugvöll, af því að hann liggur beinast við vegna staðsetningar og vegna þess að umferð af þessu tagi hefur kannski helst verið þar, á þetta við um fleiri flugvelli og er mikilvægt að skoða þetta víðar, svo að það sé sagt. Skoða þarf til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi gæti orðið.

Í greinargerðinni kemur fram að gera þurfi endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi.

Við vinnslu tillögu til þingsályktunar, um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, sagði þáverandi meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar í nefndaráliti vert að skoða að veita minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda, m.a. á Hornafirði. Það gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess að minnka álag á Keflavíkurflugvelli og auka öryggi í flugi yfir landið. Þá áréttaði þáverandi meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar um málefni Hornafjarðarflugvallar í áliti sínu við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Sagði meiri hlutinn að veita ætti minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda á Hornafirði. Slíkt gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess sem það minnkar álag á Keflavíkurflugvelli og eykur öryggi í flugi eins og rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur bent á í skýrslum sínum. — Það er kannski líka vert að nefna það hér að rannsóknarnefnd flugslysa hefur ítrekað sagt að mikilvægt sé að hægt sé að fara hagkvæmustu flugleiðina, það er öryggisatriði, og vill m.a. ganga svo langt að nefna þetta sem eina ástæðu atviks sem kom upp, flugóhapps. Það voru atburðir sem nefndin skoðaði og vildi meina að ef hægt væri að lenda á Hornafirði án þess að sækja um undanþágur í hvert skipti, og annað slíkt, hefði verið hægt að koma í veg fyrir það flugatvik þannig að þetta er mikið og stórt öryggisatriði.

Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að skoða hvort á Hornafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi til að treysta enn frekar atvinnulíf á Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Eins og ég kom inn á hefur þetta mál oft verið flutt áður. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur ítrekað tekið þetta mál inn í síðustu samgönguáætlanir og lagt mikla áherslu á þetta. Ég held því að tími sé til kominn að eitthvað fari að gerast í þessum málum. Innanlandsflugvallakerfið er mjög mikilvægt almenningssamgöngukerfi. Við fáum mikið af ferðamönnum, það er mikið álag á vegunum. Ef þetta verður að veruleika geta erlendir ferðamenn, sem koma hingað annaðhvort í einkaflugi eða sérstöku flugi — þeir sem eru í ferjuflugi yfir hafið, þeir sem þurfa að millilenda hér hvort sem er í sjúkraflugi eða í öðru flugi og taka eldsneyti. Þetta er öryggisatriði fyrir þá en þetta er líka loftslagsmál, að flugvélarnar þurfi ekki að lenda á einum flugvelli til að tékka sig inn í landið og fljúga svo á Hornafjörð. Við erum með Vatnajökulsþjóðgarð. Við erum líka með mikið af veiðimönnum o.fl., sem koma á svæðið. Þetta eykur þá líka rekstrargrundvöll flugvallarins sem er gríðarlega mikilvægt fyrir byggðina og styður atvinnulíf eins og ég hef ítrekað komið inn á.

Ég hyggst líka flytja annað mál sem fjallar þá um að Isavia ætti kannski ekki að vera með þennan þjónustusamning um að sjá um innanlandsflugvallakerfið. Ég tel að þegar Isavia er að þjónusta flugvellina þá séu þessi samkeppnissjónarmið ekki inni, að flugvöllurinn sé að berjast fyrir auknum verkefnum, heldur er bara betra fyrir þá að hafa sem fæsta flugvelli, það minnkar rekstrarkostnaðinn. Það er ekki það sem við viljum fyrir byggðina og uppbyggingu atvinnulífsins. Hagsmunirnir fara ekki saman þarna og við þurfum að hugsa það. Við erum með innanlandsflug á Hornafirði og ef við myndum uppfylla þessi öryggisatriði, loftslagsmál og byggðamál sem ég kom inn á værum við um leið að auka rekstrarhagkvæmni flugvallarins. Svo vitum við ekkert hve notkunin eykst mikið þarna þegar rafmagnsflugið fer að ryðja sér enn frekar til rúms.

Ég skora á þingheim að afgreiða þetta mál hratt og örugglega. Ég skora líka á stjórnvöld í samgöngumálum að taka það til greina að tillagan sem við flytjum hér hefur tvisvar verið tekin upp í samgönguáætlun. Í raun og veru ættum við ekki að þurfa að vera að flytja hana aftur þó að hún hafi ekki farið í gegn sem slík af því að samgöngunefnd er búin að taka hana upp og gera hana að sinni. Ég ítreka að þetta á við fleiri flugvelli hringinn í kringum landið, það er mikilvægt að minni flugvélar og ferjuflugvélar o.fl. geti lent víðar, eins og í Vestmannaeyjum og á Ísafirði ásamt Hornafirði. Svo höfum við náttúrlega Akureyri og Egilsstaði þannig að við værum komin í stórt og gott öryggisnet. Svo þegar svona innviðir eru komnir vitum við aldrei hvaða tækifæri koma. Ég held að það sé alltaf mikilvægt að fá innviðina fyrst og tryggja virkni þeirra og þá koma ómæld tækifæri sem ekki er hægt að sjá fyrir.