153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Það sem mig langar að spyrja um er að fjárlaganefnd barst erindi 22. nóvember þar sem fram kom ósk fjármálaráðuneytisins um að hækka fjárheimildir ársins um 14 milljarða vegna þess að árið 2017 urðu mistök við breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hv. þingmaður hefur fjallað um þetta og talaði um greiningarvinnu sem á eftir að fara fram og að þetta hafi ekki verið verðmetið að fullu. Ég hef reyndar ekki séð það mat og ég held því fram að það hafi ekki verið neitt mat. Í minnisblaði frá fjármálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Við síðari framlagningu frumvarps sem unnið var á grundvelli framangreinds samkomulags var sú breyting gerð, að frumkvæði fulltrúa heildarsamtakanna, að þeir sem „… greiddu ekki iðgjald til sjóðsins á tímabilinu júní 2016 til júní 2017 [skyldu] eiga rétt á greiðslum úr lífeyrisauka hefji þeir á ný greiðslur til sjóðsins eigi síðar en 12 mánuðum eftir gildistöku nýrra samþykkta.““

(Forseti hringir.) Það er sem sagt verið að lengja tímabilið sem fólk á rétt á greiðslum um eitt ár. Þetta var ekki metið. Þetta er tvisvar sinnum tekið fram í minnisblaðinu. (Forseti hringir.) Þetta eru stórkostleg mistök. Spurningin er þessi: Hver er afstaða hv. þingmanns og meiri hluta nefndarinnar til þessara mistaka? (Forseti hringir.) Telur meiri hluti nefndarinnar að þetta séu mistök eða ekki?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna á að ræðutíminn er ein mínúta.)