153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Þetta er auðvitað mjög stórt og viðamikið verkefni inn í þær kringumstæður sem við erum búin að vera að kljást við í gegnum faraldurinn og snýr að fjölmörgum aðgerðum. Við höfum þegar samið um endómetríósuaðgerðir sem upptakt að því að það er afmarkaðra verkefni í aðgerðum, en það snýr líka að kviðsjáraðgerðum og kvenaðgerðum sem við erum að semja um. Það eru fjölmargar aðrar aðgerðir þar. En þegar kemur að þessu tvöfalda kerfi sem hv. þingmaður kemur inn á, þá skapast það þegar um er að ræða langvarandi samningsleysi, birtingarmyndin er þetta tvöfalda kerfi. Við höfum hér í fyrri fyrirspurnum verið að ræða samningsleysi og áhrif á biðlistana. Þetta speglast þarna og langvarandi samningsleysi við þá sem veita heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hindrar aðgengi til lengri tíma og það eykur líka ójöfnuð. Þess vegna leggjum við svona mikla áherslu á þetta. Það er eitt að fara í átak til að vinna biðlistana í ásættanlegt horf. Í það fara þessar 750 milljónir. Það er komin viðbótarskurðstofa sem hefur verið í uppbyggingu á sjúkrahúsinu á Akranesi. Þar aukast afköst. Þannig að það eru í raun og veru allir sem vettlingi geta valdið í aðgerðum í einu kerfi og við erum að reyna að draga alla að borðinu að vinna að þessu máli sameiginlega. Þess vegna er t.d. mikilvægt að ná samningum.