Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði kerfisins ýta undir þá hættu. Ójöfnuður vex því að örorkulífeyrir hækkar ekki í takti við lægstu laun. Fólki sem ekki hefur tækifæri til að afla sér atvinnutekna, hefur engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur og treystir algerlega á almannatryggingakerfið er haldið í fátæktargildru.

Seinna í dag verður mælt fyrir frumvarpi um að hækka frítekjumark atvinnutekna í 200.000 kr. á mánuði, en frítekjumarkið hefur ekki hækkað í meira en áratug. Samsvarandi tillögu hefur Samfylkingin áður lagt fram en taka þarf til viðbótar tillit til þess að einstaklingar sem búa einir fá framfærsluuppbót sem skerðist um 65 aura á móti hverri krónu sem atvinnutekjur skapa. Hvatinn til virkni er því minni nema að dregið sé úr þeim skerðingum. Að færa mörkin í 45 aura á móti hverri krónu væri ágætisbyrjun og kjarabót fyrir þá sem verst eru settir. Besta kjarabótin væri þó að hækka greiðslur almannatrygginga til samræmis við lægstu laun, en munurinn er nú um 90.000 kr. á mánuði. Það er auðveldlega hægt að gera líkt og við í Samfylkingunni lögðum til við fjármálaáætlun 2022–2026 með fyrirmynd um kostnað í útreikninga frá Eflingu og Stefáni Ólafssyni. Það er skortur á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Öryrkjar greiða flestir allt of hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum í húsaleigu. Þar að auki greiða þau sem þurfa á þjónustu sérfræðilækna eða sjúkraþjálfara að halda sérstök komugjöld vegna þess að samningar hafa ekki náðst milli ríkisins og sérfræðinganna í fjögur ár. Mörg hafa því ekki efni á að fara til læknis eða í sjúkraþjálfun, sem aftur veldur versnandi heilsufari og skertum lífsgæðum. Flókið kerfi, lífeyrir langt undir lágmarkslaunum, dýrt leiguhúsnæði, biðlistar og aukagreiðslur vegna lækniskostnaðar og þjálfunar vinnur allt gegn lífsgæðum öryrkja nú um stundir. Hæstv. ráðherra verður að gera betur en að boða breytingar sem hugsanlega ná fram að ganga 2024. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)