Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:51]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú glaður yfir því að ræða mín varð til þess að hv. þingmaður hreifst með og varð til þess að hann fór að hugsa sinn gang. En kjarninn í því sem ég var að reyna að segja — það er nú alltaf vandræðalegt að útskýra ræðurnar sínar eftir á en ég er greinilega lentur í því miðað við fyrirspurn hv. þingmanns — að hluti af því að við höfum samfélög þar sem fólk vill búa er að hafa atvinnulífið fjölbreyttara, líka opinberu störfin. Það sem ég ræddi um, skort á læknum, heilbrigðisstarfsfólki og fagmenntuðu fólki í heilbrigðisþjónustu sem er vandamál að fá út á landsbyggðina, er allt af sama meiði og það sem hv. þingmaður var að nefna og ég fór yfir í minni ræðu; vegamál, orkuöryggi, orkuverð og þessir þættir. Það eru grunnþættirnir sem við eigum að sameinast um að ræða. Þess vegna var ég að tæpa á því líka og ítreka það aftur að við getum með eignarhaldi á þessum fyrirtækjum núna stigið ákveðið skref til að bæta þessi búsetuskilyrði. Hv. þingmaður ræðir hér um vegamál á Vestfjörðum sem ég ætla ekkert að segja annað um en að þar erum við í miklum framkvæmdum sem leiða til verulegra framfara og við sjáum loksins til enda í þeim efnum í nánustu framtíð. Það er eitthvað sem í upphafi minnar þingmennsku fyrir tíu árum var nánast ókleift.