Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[15:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu sem ég tel að við ættum að hafa reglubundið hér á Alþingi og jafnvel skylda ráðherra til að sitja undir umræðunni því að þrátt fyrir að það hafi verið sett á laggirnar nefnd um að efla traust á stjórnmálum virðist hafa fennt býsna fljótt yfir þá góðu ætlan. Það er nefnilega þetta með ábyrgðina, lagalega og pólitíska ábyrgð ráðherra. Lög um ráðherraábyrgð þurfa á uppfærslu að halda og má þar nefna mikilvægt og margframlagt frumvarp hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur sem gerir ráðherra að sæta ábyrgð ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Einhver myndi nú halda að þetta væri sjálfsagt mál og þegar í lögum en af skammri veru minni á þingi hef ég orðið þess áskynja að svo er ekki heldur eru staðreyndir oftar en ekki túlkaðar nokkuð frjálslega af ráðherrum í ríkisstjórn í opinberri umræðu. Þannig eru lög um ráðherraábyrgð haldin þeim annmörkum að þar er talað um að krefja megi ráðherra ábyrgðar en í praxís undanfarinna ára hafa ráðherrar metið eftir eigin smekk og sómakennd hvað felst í að axla ábyrgð. Þannig axlaði hæstv. forsætisráðherra ábyrgð hæstv. dómsmálaráðherra sem brotið hafði stjórnsýslulög með því að skipa starfshóp um eflingu trausts á stjórnmálum. Hæstv. fjármálaráðherra axlaði ábyrgð á bankasöluklúðrinu með því að kalla eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið og hæstv. innviðaráðherra axlaði ábyrgð á rasískum ummælum sínum í garð konu sem stödd var í gleðskap Framsóknarflokksins vegna búnaðarþings með því að — nei, annars.