Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar bara rétt að byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að skýra betur út hvernig planið er og þá förum við í skilgreiningu á „um það bil“, en kannski finnum við það einhvern tímann í einhverjum þingskjölum vel skilgreint.

En ég ætla að reyna að byrja aftur að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Það hefur verið farið ágætlega í gegnum þetta í þeim þremur umræðum sem voru hér og mér sýnist á öllu að það hafi nú verið að hlustað aðeins á það sem kom inn frá okkur sem ræddu þetta mál á fyrri stigum.

Mig langaði aðeins að fara dýpra í 7. gr. þessara laga en þar segir, með leyfi forseta:

„4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo: Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.“

Og ef við förum í greinargerðina þar sem verið er að fjalla um þessa ákveðnu grein þá segir þar, með leyfi forseta:

„Í 7. gr. er lögð til breyting á lögum um ársreikninga. Í ákvæðinu er lagt til að gert verði að skyldu að skil ársreikninga skuli vera rafræn og að ársreikningaskrá setji reglur um skil með þeim hætti.“

Svo er aðeins fjallað um það hve mikil vinna það sé að taka á móti þessu á pappír. En síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er eins og fyrr segir lagt til að ársreikningum verði skilað rafrænt, þá annaðhvort á pdf-formi eða þegar um örfélög er að ræða einfaldari útgáfu af ársreikningi sem byggist á skattframtali félagsins. Hér er um að ræða skil á rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggð á skattframtali félagsins …“

Þarna langar mig aðeins að staldra við vegna þess að það er þannig í dag að við viljum geta unnið með gögn og við viljum geta unnið með gögn á mjög þægilegan máta. Og þó svo að það sé að sjálfsögðu mikill kostur að fara frá því að skila einhverju inn á pappír yfir í það að skila því inn rafrænt, t.d. í pdf-formi, er svo sannarlega hægt að ganga lengra en þetta. Langar mig í því sambandi að hvetja ársreikningaskrá — eru það ekki þeir sem fengu leyfi til að skilgreina þetta? Lesum nú aðeins 7. gr. betur. Jú, ársreikningaskrá setur reglurnar. Það sem mig langar að hvetja ársreikningaskrá til að gera er að búa til stafrænt snið þar sem hægt er að senda þessi gögn, ekki sem pdf, vegna þess að það er bara rafræn útgáfa af skjalinu á meðan rafræna sniðið getur leyft þér að vinna miklu meira með gögnin beint. Ef við tökum sem dæmi um það hvernig við skilum skattaskýrslum okkar í dag þá gerum við það allt saman rafrænt. Það virkar þannig að við erum að fylla út ákveðna reiti á heimasíðu Skattsins og svo þegar allir eru búnir að ýta á „senda“ þá getur Skatturinn tekið út töluleg gögn. Hann getur t.d. sagt á auðveldan máta hversu mikið einstaklingar borga í fjármagnstekjuskatt á árinu. Af hverju? Jú, af því að þetta er ekki lengur fast inni í einhverju skjali heldur er þetta ákveðið svæði á vefsíðunni sem leyfir þér að gera þetta.

Þetta er aðeins flóknara þegar kemur að fyrirtækjum. En það er nú einu sinni þannig að flest fyrirtæki, og þá kannski þau fyrirtæki sem ekki falla undir skilgreininguna á örfélögum eins og hún er í 7. gr. eða greinargerðinni, nota einhvers konar bókhaldshugbúnað. Það er ekkert mjög flókið að bæta því inn í þann bókhaldshugbúnað að geta skilað á þessu rafræna formi, þetta er oft kallað xml-snið. Þetta er eitthvað sem þeir sem búa til bókhaldskerfin gætu bætt við t.d. fyrir næstu skil eftir þetta. Og hvers vegna er það gott fyrir okkur? Jú, þá gætum við t.d. strax séð, ef við erum Skatturinn, hversu háar hinar ýmsu upphæðir eru, þvert á öll fyrirtæki. Þetta eru hlutir sem við fáum ekki strax inn í gagnagrunna Skattsins og gagnagrunna ríkisins. Við getum ekki áttað okkur á því bara daginn eftir að búið var að skila öllum ársreikningum hver staðan er, hversu mikið fyrirtæki borga í ákveðin gjöld og skatta o.s.frv. samkvæmt ársreikningnum. Af hverju ekki? Vegna þess að í dag er þetta bara stafræn útgáfa, þá meina ég bara stafrænt skjal, og því er ekki skipt upp þannig að það sé hægt að finna nákvæmlega hvar einn og einn hlutur er í þessu. Þannig að með því að leggja smá meiri vinnu í þetta, það eru jafnvel til einhvers konar sniðmát sem hægt er að nota í þetta, í grunninn, þá væri hægt að búa til sérstakt sniðmát fyrir ársreikninga og samstæðureikninga þannig að hægt væri að vinna miklu meira með gögnin.

Þetta er eitt af því sem ég hef verið að ræða mikið eftir að ég byrjaði á þingi, að við þurfum að fara að geta tekið betur upplýstar ákvarðanir sem löggjafi. Hvernig gerum við það? Jú, við gerum það með því að nýta okkur betur hin ýmsu gögn. En fyrsta skrefið hjá ríkinu þarf alltaf að vera það að gera þau gögn aðgengileg þannig að hægt sé að vinna með þau. Rétt eins og að ársreikningur á pappírsformi uppi í hillu einhvers staðar er ekki mjög aðgengilegur þá er það í rauninni orðið þannig í dag að pdf-skjal er heldur ekkert rosalega aðgengilegt. Það er ákveðið flækjustig að reyna að lesa út úr því öll gögnin. En ef við legðum þessa vinnu í að búa til þetta sérstaka stafræna sniðmát fyrir ársreikningana og samstæðureikningana þá gætum við farið að taka upplýstari ákvarðanir varðandi t.d. skattlagningu á fyrirtækin. Við gætum farið að spyrja spurninga á við hversu margir notfæri sér ákveðnar afskriftir, hversu margir geri þetta, hversu háar upphæðir séu þessu eða hinu. Ef við spyrjum Skattinn í dag og þeir þurfa að fara í gegnum hvert einasta pdf-ársreikningaskjal, þá getum við rétt ímyndað okkur vinnuna við það, og nóg erum við þingmenn þó stundum að biðja um vinnu. En ef gögnin væru öll aðgengileg, væru öll í gagnagrunni hjá Skattinum, sem væri að sjálfsögðu vel lokaður og o.s.frv., þá væru svona spurningar hlutir sem hægt væri að framkvæma bara á nokkrum mínútum. Þangað hljótum við sem löggjafi, sem framkvæmdarvald að vilja fara vegna þess að það að geta spurt góðra spurninga og fá góð svör er lykillinn að því að bæta öll þau kerfi sem við erum með, hvort sem það er skattkerfið eða önnur kerfi. Þannig að ég hvet ársreikningaskrá til þess að skoða þetta nánar og koma með tillögur. Mér sýnist svo sem að lögin eða þetta frumvarp gefi ársreikningaskrá möguleika á að setja reglur og það gæti verið pdf-skjal næst skipti þegar skila á ársreikningum, en kannski hægt að þróa það þannig að árið eftir verði þetta komið á rafrænt form.

Þetta var það sem ég vildi taka fram sérstaklega hvað varðar þetta frumvarp, að þarna er möguleiki á því að hugsa aðeins lengra. Ég veit að þau hjá Skattinum hafa verið dugleg við að, ja, bara hreint og klárt eins og við sáum með okkar eigin skatt, hvað þau voru snemma í því að færa allt yfir á tölvutækt form. Og það að nær allir Íslendingar skili skattaskýrslum sínum rafrænt þýðir bara allt annað vinnuumhverfi en það var í gamla daga þar sem þú skilaðir einhverju inn á pappír og mörgum mánuðum seinna fékkstu að vita hvort þú hefðir nú gert einhverja villu eða ekki. En ég ætla að láta þetta duga um þetta frumvarp en tek við andsvörum ef einhver er með þau.