Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[12:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa stuðningi við þá ákvörðun ráðherra að vísa málinu til efnahags- og viðskiptanefndar. Þó að þetta fjalli um umhverfismál þá er þetta bandormur sem snertir öll tekjuöflunarlög ríkisins sem efnahags- og viðskiptanefnd fer með þannig að það væri eðlilegt. En nú er frumvarpið mikill doðrantur, þetta eru 416 síður, ef ég man rétt, þar af 412 síður af töflum með tölum og skammstöfunum. Það er búið að leiðrétta skjalið einu sinni, það er búið að prenta það upp með leiðréttum skammstöfunum einu sinni og svo var það tekið af dagskrá í gær, að mér skilst vegna einhverrar annarrar villu sem fannst. Ég hef dálitlar áhyggjur. Það er ansi stutt eftir af árinu. Samkvæmt starfsáætlun áttum við að klára núna á föstudaginn en nú er búið að taka hana úr sambandi þannig að við höfum einhvern meiri tíma. Hvaða fullvissu höfum við fyrir því að það hafi ekki slæðst einhverjar fleiri villur inn í þennan doðrant? Er ráðuneytið búið að vera að hlaupa of hratt vegna þess að það fór of seint af stað með þetta og nú erum við með í höndunum eitthvað sem þingið er á mörkunum með að vera í færum með að villutékka? Spurningin er, svo ég komi henni skýrt frá mér: Getum við verið viss um að það séu ekki fleiri villur hérna og hverjar voru villurnar sem voru leiðréttar?