Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[12:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að þessar krónutölur kom jafnframt fram í bandorminum en það hittir bara þannig á að hún er sérstaklega tilgreind í 3. gr., og 3. gr. er ekki mjög efnismikil, 82 kr. á kíló. Ég gef mér að það standi sama talan í bandorminum sem hér er til meðferðar síðar í dag. Það blasir við að krónutöluhækkunin er römmuð inn í þessu frumvarpi, það bara stendur hérna í 3. gr. frumvarpsins. En það er auðvitað þannig, eins og við þekkjum, að það er ekki landið um kring — við þekkjum alveg hvernig kókflaskan varð að verðmæti í höndum okkar á Esso í Borgarnesi forðum þar sem við fengum … (umhvrh.: Ég keypti á Shell.) — Shell að sjálfsögðu, auðvitað keyptum við á Shell. En við gerðum litla úttekt á þessu og ræddum við bændur á nokkrum svæðum þar sem niðurstaðan varð sú að bændur væru ekki að fá greitt til baka fyrir plast sem væri sótt til þeirra. Þetta fer auðvitað bara í það að koma plastinu til förgunar eða meðhöndlunar frekari. Þetta voru bændur í Skagafirði, Húnavatnssýslum, Súgandafirði, Mývatnssveit, Ásbyrgi, Dölunum, Kirkjubæjarklaustri, Ölfusinum austan við Hvolsvöll og í Reykhólasveit. Þetta voru bara stikkprufur hér og þar um landið. Hvergi á þessum svæðum voru bændur að fá þetta gjald til sín þannig að raunveruleikinn verður sá að það verður viðbótarkostnaður bænda landið um kring sem nemur þessari hartnær þreföldun þessa gjalds. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort einhver greining hafi farið fram á áhrifum þessarar breytingar því að það sem tilgreint er hér í 3. gr. frumvarpsins, í skýringum á henni, gefur svo sannarlega ekki tilefni til þess að ætla að svo hafi verið.