Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[15:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann og formann efnahags- og viðskiptanefndar út í breytingartillögu sem lögð er til af meiri hlutanum þess efnis að hverfa frá fyrirhugaðri hækkun á gjaldi af fiskeldi, að fjárhæð 450 millj. kr. Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna meiri hlutinn leggur til að minnka tekjumöguleika ríkissjóðs á þeim tímum sem grunninnviðir, hvert sem litið er, eru í verulegum vanda vegna vanfjármögnunar. Hagsmunasamtök fiskeldisfyrirtækja óskuðu eftir 450 millj. kr. sparnaði fyrir sína umbjóðendur á næsta ári, enda væri að þeirra mati óábyrgt og ótímabært að boða áform um gjaldhækkun á sama tíma og atvinnugreinin stendur frammi fyrir heildstæðri úttekt og stefnumótunarvinnu svo vitnað sé til þeirrar umsagnar.

Já, herra forseti, meira að segja hagsmunasamtökin átta sig á að heimild í fjárlögum til gjaldtöku er ekki það sama og að hefja gjaldtöku, heldur eingöngu heimild næstu 12 mánuði til að leggja til gjaldtöku á árinu. Með því að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar felli út heimildina er verið að afsala ríkissjóði möguleikum á að ná einhverjum af þessum 450 millj. kr. inn verði það niðurstaðan í þessari endurskoðun og stefnumótunarvinnu sem er núna í gangi.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvers vegna að útiloka mögulega tekjuöflun ríkissjóðs á þessari einu atvinnugrein sem við getum ekki séð að sé á neinni vonarvöl? Hvað veldur þessari tilteknu breytingartillögu á þessum tímapunkti?