Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um leigubifreiðaaksturs. Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um bifreiðaakstur taki gildi og að brott falli gildandi lög um leigubifreiðar, nr. 134/2001. Umtalsverðar breytingar verða á regluumhverfi leigubifreiðaaksturs hér á landi verði frumvarpið að lögum sem m.a. er ætlað að tryggja að regluverkið samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum eins og nánar er rakið í greinargerð frumvarpsins.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir og minnisblöð frá innviðaráðuneytinu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Nefndin fjallar um regluverk leigubifreiða í Noregi, einkum vegna hliðstæðrar stöðu Noregs og Íslands þegar kemur að samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Nefndinni bárust misvísandi upplýsingar um gildandi regluverk um leigubifreiðar í Noregi meðan á umfjöllun hennar um málið stóð, en könnun hennar leiddi í ljós að upplýsingar sem komu fram þar í greinargerð með frumvarpinu annars vegar og í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar hins vegar voru réttar. Í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við reglur um leigubifreiðar í Noregi voru gerðar verulegar breytingar á norska regluverkinu. Sérstökum starfshópi var falið að meta reynsluna af breytingum og tók hann til starfa vorið 2022 en niðurstaða þeirrar vinnu má vænta næsta vor.

Þá fjallaði nefndin um hættu á félagslegum undirboðum í atvinnugreininni. Á meðal breytinga sem verða á leigubifreiðamarkaði með gildistöku frumvarpsins er að unnt verður að stofna félag með lögheimili á Evrópska efnahagssvæðinu og starfrækja leigubifreiðaakstur hér á landi þar sem ráðnir verða launamenn sem annast rekstur leigubifreiða.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram áhyggjur um að þess konar markaðsaðstæður gætu skapað grundvöll undir félagsleg undirboð þar sem útsendum starfsmönnum erlendis frá yrðu boðin bágari kjör en réttmæt eru hér á landi. Nefndin fékk fulltrúa frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á sinn fund til að fjalla um málið og fékk jafnframt minnisblað frá ráðuneytinu.

Varðandi hættu á félagslegum undirboðum þegar erlendir ríkisborgarar koma hingað til landsins til að starfa við leigubifreiðaakstur var það mat ráðuneytisins að ekkert bendi sérstaklega til þess að meiri hætta sé á félagslegum undirboðum en almennt gildi á öðrum mörkuðum þar sem erlendir ríkisborgarar starfa á innlendum vinnumarkaði.

Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið ráðuneytisins. Meiri hlutinn bendir á að í frumvarpinu er að finna ákvæði sem reisa helstu áhættuþáttum ákveðnar hindranir. Þannig ber samkvæmt frumvarpinu öllum þeim sem aka leigubifreið að uppfylla ströng skilyrði og hafa fengið sérstakt atvinnuleyfi útgefið af Samgöngustofu. Þá er skylda að allar leigubifreiðar séu skráðar hér á landi og hafi viðeigandi ökutækjatryggingu. Þá bendir meiri hlutinn á að þær aðstæður sem skapast, verði frumvarpið að lögum, að fyrirtæki geti stundað leigubifreiðaakstur og ráðið bílstjóra, leiða að líkindum til þess að leigubílstjórar verði í auknum mæli launamenn með þeim réttindum og þeirri vernd sem í því felst samkvæmt lögum og kjarasamningum. Loks er rétt að geta þess að um starfsmenn erlendra fyrirtækja sem sendir eru hingað til lands til tímabundinna starfa gilda lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, sem ætlað er að tryggja að laun og réttindi slíkra starfsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga hér á landi.

Verði frumvarpið að lögum verða umtalsverðar breytingar á regluumhverfi leigubifreiðaaksturs. Telur meiri hlutinn því nauðsynlegt að vel verði fylgst með framvindu mála eftir gildistöku laganna og áhrif breytinganna metin. Meiri hlutinn telur að við mat á reynslunni af breytingunum þurfi sérstaklega að huga að áhrifum þeirra á nánar tiltekna þætti sem taldir eru upp í áliti meiri hlutans. Þar má nefna verðlag og framboð á leigubifreiðaþjónustu, þjónustu við hópa í viðkvæmri stöðu, stöðu þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu, aðstæður á vinnumarkaði með tilliti til samkeppnissjónarmiða annars vegar útsendra starfsmanna og hættu á félagslegum undirboðum hins vegar.

Nefndin fjallaði að auki um mikilvægi þess að atvinnugreinin taki virkan þátt í umhverfismálum og stuðli að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Leggur meiri hlutinn m.a. áherslu á að ríki og sveitarfélög myndi umgjörð og geri greininni kleift að leggja sitt af mörkum í því tilliti, bæði sem mikilvægur hlutur af almenningssamgangakerfinu og með þátttöku í orkuskiptum. Áréttar meiri hlutinn mikilvægi uppbyggingar innviða sem styður við rafvæðingu bílaflotans og að til staðar séu skilvirkir hvatar til notkunar vistvænna leigubifreiða.

Svo ég komi aðeins inn á breytingar sem meiri hlutinn leggur til í þessu nefndaráliti þá er í fyrsta lagi lögð til breyting er varðar hæfniskröfur fyrirsvarsmanna lögaðila í leigubifreiðarekstri. Meiri hlutinn telur að í þeirri kröfu frumvarpsins að fyrirsvarsmaður lögaðila í leigubifreiðarekstri uppfylli skilyrði um ökuhæfni felist ónauðsynleg takmörkun á atvinnufrelsi og leggur til að fallið verði frá því. Sem dæmi má nefna að meiri hlutinn telur ekki verjandi að einstaklingi sem af einhverjum völdum er ófær um að stjórna ökutæki, svo sem vegna fötlunar, sé af þeirri ástæðu óheimilt að vera í fyrirsvari fyrir fyrirtæki í rekstri leigubifreiða. Fyrirsvarsmönnum lögaðila verði áfram gert að uppfylla önnur þau skilyrði sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þar með talin skilyrði um þekkingu á rekstri, bókhaldi og skattskilum. Meiri hlutinn telur þó að aðstæður kunni að leyfa að vikið sé frá skilyrði um að viðkomandi hafi setið sérstakt námskeið á vegum Samgöngustofu til að afla þessarar þekkingar, enda megi sýna fram á hana með öðrum þætti, svo sem með annarri viðeigandi menntun og reynslu.

Leggur meiri hlutinn til að ráðherra verði heimilt í reglugerð að kveða á um viðmið sem líta megi til í þessu skyni til grundvallar þess að fallið verði frá skyldu til að sitja viðkomandi námskeið. Leggur meiri hlutinn til breytingar á 6. og 7. gr. frumvarpsins vegna þessa. Til viðbótar leggur meiri hlutinn til tvær breytingar á 6. gr. sem varða skilyrði fyrirsvarsmanns lögaðila í leigubifreiðarekstri. Annars vegar að fyrirsvarsmaður lögaðila falla undir 4. mgr. ákvæðisins í þeim tilfellum þar sem rekstrarleyfishafi er lögaðili og verði þannig gert að leggja fram gögn við endurnýjun rekstrarleyfis sem staðfesti að hann uppfylli enn þar til gerð skilyrði. Eðlilegt er að sömu sjónarmið gildi um fyrirsvarsmenn lögaðila og rekstraraðila sem er einstaklingur að þessu leyti. Samhliða þessu leggur meiri hlutinn til að lokamálsliður 5. mgr. falli brott enda ljóst að ákvæði 4. mgr. gildi um lögaðila jafnt sem einstaklinga þegar leyfishafi er lögaðili.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar eftirlit Neytendastofu með verðupplýsingum. Tekur meiri hlutinn þar undir ábendingu Neytendastofu um að tilefni sé til að vísa til ákvæða laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þannig að skýrt sé að málsmeðferð eftirlitsins sem og afleiðingar vegna hugsanlegra brota fari samkvæmt þeim lögum. Þá telur meiri hlutinn ljóst að eftirlit Neytendastofu samkvæmt greininni nái jafnt til lagaákvæðisins sjálfs sem og til nánari fyrirmæla samkvæmt reglugerð ráðherra sem sett eru með stoð í ákvæðinu.

Að lokum er lögð til breyting á gildistöku frumvarpsins þannig að lögin öðlist gildi 1. apríl 2023. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þeim aðilum sem frumvarpið hefur áhrif á gefist andrými til að undirbúa gildistöku nýrra laga um leigubifreiðaakstur. Þá voru lagðar til minni háttar og lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísað er að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar og breytingartillagna í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og fjallað er um í áliti meiri hlutans.

Undir nefndarálit meiri hluta rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson og René Biasone. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessu áliti en mig langar til að bæta við að þetta frumvarp er lagt hér fram í fjórða sinn og hefur því fengið að þroskast í nefnd og í umfjöllun á þinginu. Það kom til umfjöllunar nefndarinnar í fyrra þar sem undirrituð var framsögumaður og tók nokkrum breytingum þó að það næði ekki í gegn á þinginu. Þær breytingar skiluðu sér inn í nýtt frumvarp sem lagt var fram í haust og má nefna að þegar frumvarpið var lagt fram í fyrra komu inn 26 umsagnir um málið en eftir að það var lagt fram að nýju núna í haust voru einungis 11 umsagnir um málið og þá margar mjög jákvæðar þótt það hafi komið inn athugasemdir og neikvæðar umsagnir líka. Það var fjallað vel og mikið um málið inn í nefnd að þessu sinni. Það voru teknir inn allir umsagnaraðilar og það voru 17 gestir frá 12 aðilum og hefur verið fjallað um málið síðan það kom til nefndar 27. september sl.

Ég vonast til að þetta nái lendingu. Eins og var tekið fram hér er þetta náttúrlega mál sem er gríðarleg breyting á umhverfi leigubifreiðaaksturs hér á landi sem hefur nánast ríkt óbreytt frá seinna stríði og því mikilvægt að það séu tekin varfærin skref enda leggur meiri hlutinn til að það verði strax frá gildistöku laganna fylgst með framvindu þessa máls og að endurskoðun hefjist í raun strax þannig að við séum að fylgjast með þessu eftir gildistökuna og áhrif breytinganna metin. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að gæta vel að slíkri eftirfylgni, eins og ég tók fram í upphafi málsins. Það er vonandi að þetta nái farsælum endi bæði fyrir leigubifreiðastjóra og þá aðila sem nýta þessa mikilvægu þjónustu.