Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur segi ég: Ég veit ekki hversu sterkt ég á að taka til orða hér í pontu varðandi brot á umræddum lögum en það liggur a.m.k. fyrir og þetta er eitthvað sem við höfum óskað eftir, minni hlutinn í nefndinni, að þetta verði tekið fyrir í hv. fjárlaganefnd, að við fáum álit á þessu verklagi sem er að birtast núna frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu. (Gripið fram í.) Það liggur alveg fyrir að þetta er a.m.k. mjög óeðlileg framsetning á fjárheimildum. Þetta er líka eitthvað sem við í rauninni í hv. fjárlaganefnd fáum bara að frétta af í fjölmiðlum eftir ákveðnum hentiskap. Það sem er náttúrlega líka miður í þessu samhengi er að það virðist vera tekið úr ákveðnum sjóðum þarna sem eru ætlaðir í aðra hluti. Það er ástæða fyrir því að í fjárheimildum sem fara í gegnum hv. fjárlaganefnd eru ákveðin fjárútlát sett á fasta liði vegna þess að það verður líka að reyna að halda utan um ákveðin verkefni. Við höfum hins vegar séð það auðvitað að það hefur færst í aukana að það er svolítið verið að færa til fjárheimildir. Við þurftum að eiga við það í minni hlutanum, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel, að minni hlutinn í hv. fjárlaganefnd sá hulu yfir fjárlögunum, sá ekki fjárlögin í fullri mynd framan af hausti vegna þess að svo mikið af fjármagni var inni í almennum varasjóði. Þannig að mér finnst þetta ekki fjárlagavinnunni til framdráttar. Ég veit að þetta er ekki eitthvað sem meiri hlutinn ákvað að kæmi inn. Þetta er bara einhver tilkynning sem berst frá ráðuneytinu. En ég legg til að við í nefndinni leggjumst yfir þetta og gerum athugasemdir við þetta verklag og fáum upplýsingar um hvernig eigi að vinna úr þessu vegna þess að það er auðvitað óeðlilegt að vera að boða breytingar í fjárauka áður en er búið að samþykkja fjárlagafrumvarpið hérna inni í þinginu. (Gripið fram í.)