Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þm. Hildur Sverrisdóttir. Ég ítreka líka það sem ég sagði hér í fyrra andsvari, að þær athugasemdir sem koma fram hjá hv. þingmanni eru akkúrat verkefni fyrir hv. velferðarnefnd og raunverulega athyglisvert það sem hv. þingmaður dregur hér fram varðandi rökstuðninginn í frumvarpinu. Ég var í fyrra andsvari að reyna að draga fram eftir minni rannsóknir sem eru til á þessu sviði. En það er rétt, það er kannski einungis komið inn á 16. lið formála tilskipunarinnar þar sem er vísað til þess, með leyfi forseta, að „líkur séu á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hafi einkennandi bragð, annað en bragð af tóbaki. Jafnframt geti slíkt einkennandi bragð tóbaksvara haft áhrif á neyslumynstur þeirra sem neyta tóbaksvara.“

Þetta er verkefni fyrir hv. velferðarnefnd að skoða. Ég hygg að þegar kemur að áhrifum á tekjur ríkissjóðs, af því að það kemur fram í frumvarpinu að það er ekki lagt mat á þær tekjur sem ríkissjóður kann að fara á mis við, að við myndum þurfa að gefa okkur það að það kæmi ekkert í staðinn Þeir sem reykja mentólsígarettur myndu þá ekki leita í aðrar nikótínvörur. Það væri mjög vel vegna þess að það væri framtíðarávinningur almennings og það myndi leiða til þeirra almannaheilla og betri lýðheilsu sem sá sem hér stendur bindur miklar vonir við.