153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

menntunarstig á Íslandi.

[15:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Aðsókn ungs fólks í framhaldsnám er mun minni á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í nýútgefinni skýrslu um virði menntunar kemur fram að 38% ungs fólks hér á landi á aldrinum 25–34 ára hefur sótt sér háskólamenntun samanborið við 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð. Þá skerum við okkur úr þegar kemur að þeim sem eingöngu hafa grunnskólapróf en þann hóp fylla nærri 25% landsmanna 25–64 ára. Þetta hlýtur hæstv. ráðherra eins og okkur öllum að þykja sérstakt áhyggjuefni, enda höfum við til þessa dags flíkað því að vera vel menntuð þjóð og að þar liggi auður okkar og hagsæld til framtíðar. Það hversu fáir útskrifast er verulegt áhyggjuefni og þá er ekki úr vegi að nefna kynjamuninn sem er sá þriðji mesti innan OECD-ríkja og um tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum, körlum í óhag sem eru einungis 30% útskrifaðra. Slíkt ójafnvægi hefur sýnt sig að getur haft veruleg neikvæð áhrif félagslega til framtíðar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra annars vegar út í hennar áætlanir hvað þetta varðar sem og menntunarstig þjóðarinnar almennt. Hvernig sér hún fyrir sér að snúa við þessari óheillaþróun? Hvað telur hún að valdi því að við erum svona langt á eftir? Hefur það eitthvað með samfélagið að gera, viðhorf til menntunar eða áhrif menntunar á launakjör svo dæmi sé tekið? Eða getur þetta haft eitthvað með aðbúnað og kjör stúdenta að gera?