Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er að vissu leyti mjög sammála því að þetta ákvæði um að afnema þjónustu eftir 30 daga og sérstaklega að það muni ekkert taka við, það mun sennilega leiða til ákveðinna kæruleiða og jafnvel dómsmála og ég held að það mál gæti endað úti í Strassborg. Þess vegna er 2. minni hluti með breytingartillögu sem leiðir til þess að einstaklingur eigi alltaf rétt á þjónustu til að koma í veg fyrir að hann leiðist í örbirgð, svo að það liggi fyrir, sem er gríðarlega mikilvægt, svo að við séum ekki að fara í endalausar málaþrætur eins og að fá annan hollenskan dóm kannski.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Núna eru þetta einfaldlega málsmeðferðarlög að mörgu leyti. Það kemur hérna hælisleitandi. Hann sækir um alþjóðlega vernd og sú umsókn er tekin til málsmeðferðar og kannað hvort hann búi við rökstuddan ótta við ofsóknir í heimalandi sínu. Þá er umsókn annaðhvort samþykkt og hann fær vernd eða þá hafnað. Ef hann neitar að fara af landi brott af frjálsum og fúsum vilja þá er beitt þvingaðri brottför. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður á móti því að þvingaðri brottför yrði beitt og hver er afstaða hans til þess? Telur hann það ekki hluta af málsmeðferðinni að hafna umsóknum? Hver er afstaðan til þess? Á að veita öllum hæli — alþjóðlega vernd? (Forseti hringir.) Og hver er afstaðan til þvingaðrar brottfarar?