Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

frumvarp um útlendinga.

[14:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hérna upp vegna Hildar Sverrisdóttur, hv. þm. Sjálfstæðisflokks, þar sem hún sakar þingmenn um sýndarleik í sal Alþingis. Nú er það svo að við munum ræða hér útlendingamál hæstv. dómsmálaráðherra í allan dag og næstu daga. Engu að síður hefur hv. þm. Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Jódís Skúladóttir, sem á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd kallað málið inn milli 2. og 3. umr. Hæstv. forsætisráðherra boðar í hádegisfréttum breytingar á frumvarpinu en engu að síður eigum við að standa hér, þingmenn, og ræða þetta mál nótt og dag næstu daga með það hangandi yfir að mögulega verði kannski gerðar einhverjar breytingar sem Vinstri græn ætla þá ekki að ræða við okkur fyrr en einhvern tíma seinna.

Maður veltir fyrir sér hvort það sé góð ráðstöfun á tíma þingheims að hafa þetta í þessari röð. Við vorum að klára viðbótarumræðu (Forseti hringir.) inni í nefndinni og þá hreyfðu Vinstri græn ekki neinum andmælum, þannig að ég velti fyrir mér hvort þetta sé sýndarleikur.