Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fjallað er um losunarbókhald gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis á Íslandi í árlegri skýrslu Umhverfisstofnunar til ESB og Sameinuðu þjóðanna vegna Kyoto-sáttmálans og Parísarsamkomulagsins. Kyoto-tímabilinu lauk 2020 og verður gert upp í ár, 2023. Tímabil Parísarsamkomulagsins hófst árið 2021 og er til ársins 2030. Á Íslandi jókst heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 30% frá árinu 1990. Samkvæmt Kyoto-sáttmálanum lofuðu Íslendingar að draga úr losun um 20% árið 2020 miðað við 1990, en hún jókst um rúmlega 30% eins og hér segir. Engar líkur eru á að staðið verði við þau loforð um að draga úr losun um 20% samkvæmt Kyoto-samkomulaginu.

Losun á ábyrgð stjórnvalda er sú sem ríkið og íbúar eru ábyrgir fyrir. Hún var óbreytt milli áranna 2017 og 2018. Langmest losun er frá orku og stórt hlutfall, um helmingur, er frá vegasamgöngum. Útilokað er að við stöndum við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu og við þurfum líklega að kaupa kolefnislosunarheimildir fyrir milljarða, ef ekki tugi milljarða. Þetta er staðan varðandi alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Við erum ekki að standa við Kyoto-samkomulagið og ekki að standa við Parísarsamkomulagið. Ég tel því mikilvægt að hafa þetta í huga þegar farið er að athuga hvort við eigum að gangast undir nýjar alþjóðlegar skuldbindingar. Það er mjög mikilvægt að Ísland gangist undir alþjóðlegar skuldbindingar sem við getum staðið við. Þar liggur ábyrgð okkar Íslendinga. Í heildarsamhengi hlutanna á heimsvísu skiptir Ísland engu máli, sáralitlu, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu. Við eigum hins vegar að gera það vel sem við tökumst á hendur. Við eigum að ganga í orkuskiptin og gera það vel.