Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í mínum síðustu tveimur ræðum hef ég verið að ræða aðeins um skilgreininguna á flóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Dómsmálaráðherrar og aðrir hv. þingmenn hafa stundum notað önnur orð, og svo ég vitni í ráðherrann, með leyfi forseta, þeir hafa talað um fólk sem er að „freista gæfunnar, fólk sem er í daglegu tali kallað efnahagslegir flóttamenn og er í leit að betri lífsskilyrðum, á ekki erindi í verndarkerfið.“

Þetta voru orð hæstv. ráðherra í ræðustól í 1. umr. um þetta mál. Ég tel, frú forseti, að það sé mikilvægt að við tölum hreint út. Við þurfum að muna það að nálægt því níu af hverjum tíu sem hingað koma eru að flýja stríð, óöld, átök og aðrar þær ofsóknir sem ég nefndi í síðustu ræðu. Þegar við skoðum tölfræðina — vegna þess að það er gaman að Útlendingastofnun birtir tölfræðina sína. Reyndar sakna ég þess að full tölfræði fyrir árið 2022 er ekki komin á vefsíðuna og skora ég á ráðherra að tala við stofnunina og fá þessar tölur uppfærðar vegna þess að við þurfum að taka ákvarðanir út frá gögnum. Gögnin sýna að þegar þú skoðar hælisleitendur, þá sem hingað koma, sækja um alþjóðlega vernd og eru frá löndum þar sem ekki er stríð eða átök er þeim umsóknum nær undantekningarlaust hafnað. Tölfræðin sýnir þetta svart á hvítu. Árið 2021 sóttu tíu manns t.d. um hæli hér á landi frá Albaníu. Tíu umsóknum var líka hafnað. 11 manns sóttu um hæli frá Kólumbíu. 11 af þeim var synjað. Meira að segja — ég og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson ræddum hér harðlega um Venesúela fyrr í dag. Hv. þingmaður vildi meina að úrskurður Útlendingastofnunar hefði gert það að verkum að allir Venesúelabúar fengju að koma hingað inn. Það er bara alls ekki satt, því samkvæmt nýjustu gögnunum frá 2021 var 23% af Venesúelabúum sem sóttu um hafnað. Þeir voru ekki taldir falla undir þessa hættu á ofsóknum sem er hluti af skilgreiningunni á þessu.

Stundum er talað um að það þurfi að senda skýr skilaboð svo að hingað komi ekki flóð af fólki. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að það að hafna fólki sem ekki kemur frá löndum þar sem eru átök og stríð séu bara ansi skýr skilaboð. Nú, það er svo allt annað mál hvort við eigum ekki að hlusta á það sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar benti á, að það þurfi ekki stríð eða átök til að einstaklingar falli undir skilgreiningu Flóttamannastofnunar um að eiga rétt á að vera metnir sem flóttamenn. (Forseti hringir.) Það erum við ekki að ræða hér. Útlendingastofnun gerir það ekki heldur.