153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[11:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Til að toppa stefnuleysið þá liggur ekki einu sinni fyrir hvað á að koma í staðinn. Hvað hefur breyst, hæstv. ráðherra, síðan að við ákváðum að fjárfesta í þessari vél eftir fjögurra ára þarfagreiningu? Af hverju er hún gagnslaus og þarflaus í dag? Er Isavia þess háttar opinbert hlutafélag að það liggi bara með flugvél á lausu þegar kallið kemur? Hvernig stendur á því að Isavia er rekið með þeim hætti að þar liggur fjárfesting af þessu tagi án þess að vera í notkun, sem hægt er að kalla til þegar þörf er á? Það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar að reka Landhelgisgæslu Íslands með þau fjölmörgu verkefni sem þar eru undir með þeim hætti að nauðsynlegt er fyrir Landhelgisgæsluna að leigja flugvélina út til flóttamannaflutninga og flóttamannaeftirlits hjá Frontex. (Forseti hringir.) Hugsið ykkur kaldhæðnina í þessu. Þetta er sama vél og er verið að leigja til Frontex og í alls konar eftirlit, (Forseti hringir.) fann m.a. 900 flóttamenn á floti á Miðjarðarhafinu. Það hefur kannski verið akkúrat hugsunin með því að selja þessa vél, (Forseti hringir.) að hún gæti ekki fundið þessa flóttamenn.