Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

frammíköll þingmanna.

[11:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar og vil hvetja þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að nota pontuna til að tjá hug sinn. Það var ekki bara hv. þm. Ásmundur Friðriksson sem lýsti skoðun sinni hér úti í sal á mér og því sem mér við kom heldur gerði hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson það einnig. Hann hefur skoðanir á sölu dómsmálaráðherra á flugvélinni en kýs að viðra þær ekki hér í pontu. Ég held að maður kalli eftir afstöðu hans, sem er formaður Íslandsdeildar NATO, á sæti í utanríkismálanefnd — honum er mjög umhugað um öryggi Íslands og þau mál og líka flugið. En ég kalla líka eftir afstöðu formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarna Jónssonar. Hvers vegna eru þessir fulltrúar stjórnarinnar ekki hér í pontu til að lýsa afstöðu sinni í þessu máli? Það er mér algerlega óskiljanlegt. Þau komu hér hvert á fætur öðru til að segja að þau hafi ekki haft hugmynd um þá fyrirætlan að selja þetta mikilvæga öryggistæki.