153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

frumvarp um útlendinga.

[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þann 27. september 2017 sagði hæstv. ráðherra, þá formaður flokks í stjórnarandstöðu, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þegar framkvæmd laga sem varðar fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, börn, hefur það í för með sér að réttlætiskennd jafn margra er misboðið, þá er ástæða til að hlusta. Þegar UNICEF og Rauði krossinn biðja okkur að hlusta er ástæða til að hlusta, hlusta og velta því fyrir sér hvort við séum að framfylgja lögum sem eiga að byggjast á mannúð með þeim hætti sem við eigum að gera þannig að þau uppfylli skyldur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum undirgengist.“

Nú hafa bæði Rauði krossinn og UNICEF ásamt yfir 20 öðrum umsagnaraðilum lýst áhyggjum af samþykkt útlendingafrumvarpsins sem nú er til umræðu á þingi og skorað á Alþingi að tryggja mannréttindi, m.a. barna á flótta. Að sama skapi varar Rauði krossinn við því að leiða í lög ákvæði til að þröngva flóttafólki á götuna í von um að þau fari sjálfviljug úr landi. Úr umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Er hér raunar lagt til að börn missi rétt til efnismeðferðar ef foreldrar þess eða umsjónarmenn teljast vera valdir af töfum. Hingað til hafa börn verið talin eiga sjálfstæðan rétt til efnislegrar meðferðar.“

Fjölmörg fleiri dæmi eru um skerðingar á mannréttindum í frumvarpinu þar sem ekki er búið að láta meta samræmi við stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu. Nú er hins vegar augljóst að forsætisráðherra er ekki á sömu skoðun og árið 2017 þegar kemur að mikilvægi þess að tryggja að mannréttindi séu virt. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur breyst? Hvers vegna er hún hætt að hlusta?