153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[15:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Þetta ástand sem nú er uppi mun kalla fram aukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma vegna þess að svo margir fresta því að fara til læknis vegna þess að þeir hafa ekki efni á því. Ég er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi sem fjallar um hvernig verja má fólk fyrir slíkum gjöldum utan greiðsluþátttökukerfisins. Þar er tekið fram að ef endurgreiðsla fæst úr ríkissjóði fyrir einkarekna heilbrigðisþjónustu, líkt og nú er, þá sé veitendum þjónustu óheimilt að krefja fólk um frekara gjald og einnig að renni samningur um veitingu þjónustunnar út og árangurslausar viðræður um endurnýjun samnings hafa staðið lengur en í níu mánuði skuli ágreiningur lagður í gerð á grundvelli laga um samningsbundna gerðardóma. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé ekki sammála því að það sé nauðsynlegt að gera þessar breytingar á lögum um sjúkratryggingar til þess að markmiðið um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag nái fram að ganga. Þurfum við ekki, löggjafinn, að verja fólk fyrir slíku ástandi sem uppi er núna og við sjáum engan enda á samkvæmt svörum hæstv. heilbrigðisráðherra?