sjávarútvegsmál.
Herra forseti. Mikið ósætti ríkir meðal þjóðarinnar um eina mikilvægustu atvinnugrein okkar, sjávarútveginn. Stór hluti almennings er á þeirri skoðun að arðinum af auðlindinni okkar, fiskinum í sjónum, sé ekki skipt á réttlátan hátt. Stórútgerðin græðir og græðir og nýliðun er nær ómöguleg í hinu harðlæsta kvótakerfi. Ljóst er að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn sé mikilvæg atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu miklum verðmætum þá eru verulegar úrbætur á kerfinu nauðsynlegar.
Ég er því miður ekkert sérstaklega bjartsýn á að verkefnið Auðlindin okkar muni skila raunverulegum árangri. Í besta falli verður stoppað í einstaka göt einhvern veginn til að róa okkur en stóru álitaefnin skilin eftir. Það er nefnilega svo að þau eiga að fara í umræðu á meðan minni mál, sem eru auðvitað mikilvæg líka, á að taka til framkvæmda.
Eitt af því sem bent hefur verið á er að framkvæmd við vigtun sé ekki samræmd hér á landi auk þess sem eftirlit með vigtun sé verulega ábótavant. Engin ákvæði eru í íslenskum lögum um samræmda vigtun og er útgerðinni það í sjálfsvald sett hvaða aðferð hún beitir við vigtun aflans. Grunur leikur á að svindl við vigtun viðgangist jafnvel, enda er endurvigtun á afla í höndum útgerðarinnar sjálfrar. Ég skil ekki alveg hvernig það gerðist að útgerðunum sjálfum er sýnt það traust að segja til um hversu mikið veiðist. Sú tækni sem nú þegar er um borð í nær öllum bátum og skipum sem og á vinnslustöðvum gefur nákvæmar upplýsingar um magn og þyngd afla en einhverra hluta vegna er þessi tækni ekki nýtt til eftirlits og almenningur tapar. Almenningur tapar á því að stjórnvöld taki ekki á þessu.