Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:14]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. matvælaráðherra að mæta hér og bregðast við. Það er flókið verkefni að fást við mótaðar leikreglur sjávarútvegs en ég sat í því verki fyrir nokkrum vikum síðan að þurfa að leita í gömlum gögnum, fletta gömlum blöðum og lesa mér til um þróun ákveðinna mála og það er ótrúlega stutt síðan við vorum með sjávarútveg sem var í fanginu á, hvort sem var ríkisstjórn eða sveitarstjórnum og bæjarstjórnum víða um landið, til að bregðast við vanda hans. Það er önnur birtingarmynd á sjávarútvegi sem blasir við úr þessum ræðustól í dag. Við höfum gripið til fjölmargra aðgerða til að efla byggðir, sjávarbyggðir í landinu. Þar hefur byggðakvótinn spilað stórt hlutverk og ég ætla ekki að gera lítið úr honum. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni, sem hér ræddi um skelbætur sem er ein útgáfan af úrræðum sem voru stunduð á þessum árum. Okkur er sannarlega ekki til setunnar boðið að leysa úr þeim málum með þeim hætti og ég styð málflutning hv. þm. Bergþórs Ólasonar í þeim efnum. En hitt vildi ég líka draga fram sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir ræddi hér, verðmætasköpunina. Við getum í sjálfu sér farið tvær leiðir í þessu. Við getum haft hér útgerð sem einblínir fyrst og fremst á hagkvæmni veiðanna. Við höfum ekki farið þá leið. Við höfum farið þá leið að gera mikil verðmæti úr þeim afla sem við drögum að landi með því að hagræða, með því að byggja hátæknifiskvinnslu, með því að efla störfin í landi og vinna verðmæta vöru úr þessum fiski. Það leiðir síðan af sér ýmsa aðra jákvæða hvata eins og nýsköpun þar sem framleitt er fæðubótarefni úr aukaafurðum eða jafnvel lækningavörur.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég aðeins hnykkja á áliti meiri hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin og ræða um málefni Hafrannsóknastofnunar, (Forseti hringir.) tími minn er útrunninn, en ég hvet eindregið til þess að við grípum þar til aðgerða í tíma svo nýtt hafrannsóknaskip verði ekki bryggjuskraut í Hafnarfirði.