Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér leggjum við til að 6. gr. verði felld brott en í henni leggur ríkisstjórnin til að fólk sem synjað hefur verið um vernd verði svipt allri þjónustu 30 dögum eftir lokasynjun. Þjónustan heyrir undir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, varaformanns Vinstri grænna, en hæstv. ráðherra hefur farið huldu höfði í umræðu um málið þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar í fjölmiðlum síðastliðið vor þegar okkur í Samfylkingunni og fleirum tókst að koma í veg fyrir sambærilegar breytingar. Nú er svart orðið hvítt, Vinstri græn með Framsókn upp á arminn hafa gert útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins að sinni og gera allt til að koma í gegn breytingum á lögum um útlendinga sem fela í sér kaflaskil í meðferð íslenskra stjórnvalda á fólki á flótta. Í nafni skilvirkni á að vísa fólki á götuna, svipta það réttindum til grunnheilbrigðisþjónustu og þeim 10.000 kr. sem þau hafa til framfærslu í hverri viku. Þetta mun ekki leiða til skilvirkni í málaflokknum heldur velta vandanum yfir á aðra anga kerfisins, sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustunnar og réttarkerfisins.