Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að leggja til að 8. gr. frumvarpsins falli brott, en í henni er verið að leggja til einhvers konar fyrsta griðland eða svokallað öruggt þriðja ríki í nafni skilvirkni sem á að vísa fólki til þeirra ríkja sem það hefur hvorki heimild til að fara til né dvelja í; til ríkja sem hafa engar skyldur til að taka á móti þessu fólki. Það er með öðrum orðum verið að búa til eitthvert séríslenskt kerfi án samtals við önnur ríki. Þetta gengur auðvitað ekki upp og á það hefur margsinnis verið bent í umræðunni, bæði í nefndinni og hér í umsögnum og við meðferð í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd. Hvers vegna í ósköpunum stjórnarliðar hlusta ekki veit ég ekki. Þetta verða orð á blaði en óframkvæmanlegt. Það verður fróðlegt að heyra og sjá hvernig þau sjá fyrir sér að auka skilvirkni með þessu bulli, því að eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti á eru sum ríki, m.a. Norðurlönd, með virka endursendingarstefnu. En við erum ekkert með það. Við erum ekki með utanríkisþjónustu sem getur sinnt svona samtali. (Forseti hringir.) Þetta er bara bull, herra forseti. Þetta er (Forseti hringir.) óframkvæmanlegt. Ég hvet stjórnarliða (Forseti hringir.) til að styðja breytingartillögu okkar um að fella út þetta ákvæði.