Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Talandi um skilvirkni. Hér er verið að fella niður tímafresti sem settir voru inn með lagabreytingum í kjölfar vandaðrar vinnu þverpólitískrar nefndar á kjörtímabilinu 2013–2016. Við í Samfylkingunni höfum lagt til að í stað þess að reyna að þröngva þessum óskapnaði í gegn enn eitt árið þá förum við í alvöruvinnu og vandaða vinnu, þverpólitíska, með þeim sérfræðingum sem best þekkja til. En nei, Sjálfstæðisflokknum og fylgiflokkum hans er meira í mun að tikka í einhver box í hverfafélögunum sem fylgja Valhöll. Tímafrestirnir sem settir voru inn breyttu til muna lengd málsmeðferðar hjá stjórnvöldum af því að þá voru stjórnvöldum sett mörk. Það gerði það að verkum að fólk hætti að daga uppi árum saman í kerfinu heldur var einhver hvati fyrir stjórnvöld til að drífa málin í gegn til að þurfa ekki að taka þau til efnismeðferðar, af því að það að taka mál til efnismeðferðar er í raun og sann að veita fólki vernd af því að þá kemur alltaf í ljós að viðkomandi þarfnast verndar. (Forseti hringir.) Nei, við ætlum að búa til óskilvirkt kerfi, leyfa fólki að hanga hérna árum saman af því bara og kalla það skilvirkni.