Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

sóttvarnalög.

529. mál
[15:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra framsöguna. Ég velti því fyrir mér, nú áttum við orðastað, ég og hæstv. ráðherra í fyrirspurnatíma síðastliðinn mánudag þar sem ég spurði hæstv. ráðherra út í þróun mála er mikla fjölgun í dauðsföllum varðar á milli ára þar sem dauðsföll árið 2022 voru 390 fleiri en þau höfðu verið að jafnaði á árunum frá 2017–2021. Samtal okkar ráðherrans þróaðist á þann veg að ráðherra sagðist vera að tala við marga og það þyrfti að skoða þetta allt saman vel. En ég velti fyrir mér hvort það sé ekki ástæða til að skoða þá hluti og þau áhrif sem framkölluðust af þeim aðgerðum sem gripið var til í þaula áður en farið er í jafn umfangsmikla breytingu á sóttvarnalögum og hér er lagt til, því að mér sýnist fljótt á litið að þetta sé í meginatriðum sá texti sem lagður var fram áður og augljóslega ekki búið að kafa ofan í, leyfi ég mér að segja, þær upplýsingar sem fram hafa komið á síðustu misserum. Þannig að ég vil spyrja til að byrja með hæstv. ráðherra hvort hann telji forsvaranlegt að gera slíka grundvallarbreytingu á sóttvarnalögum áður en að þessi mál hafa verið krufin til mergjar, sem svo sannarlega er nauðsyn á. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi síðastliðinn mánudag en að hann teldi nauðsynlegt að slík skoðun færi fram. Yrði það til einhvers skaða að mati hæstv. ráðherra að frumvarpið fengi að bíða svona eins og einn hring þannig að það verði betur grundað hvaða áhrif núverandi sóttvarnalög og beiting þeirra kallaði fram í gegnum tímabil heimsfaraldursins?