samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég ætla ekki að víkja mér undan því að segja að auðvitað snertir þessi hugmynd almenna stefnumótun við innheimtu og gjaldtöku á umferð og hún talar algerlega í samhengi við önnur samþykkt þingmál hér á landi, að við séum að taka upp notendagjöld á vegum. Hér mætti aftur á móti segja: Hér eru hin raunverulegu flýtigjöld. Þetta er gjaldið sem er tekið raunverulega til þess að flýta framkvæmdinni. Hvort sem við horfum til 5 ára áætlunar eða 15 ára áætlunar þá hafa íbúar þessa lands, íbúar þessara héraða, séð að Alþingi hefur sagt: Við munum forgangsraða fjármunum til þessarar framkvæmdar sem snerta ykkur með beinum hætti. Af hverju færum við þá ekki þessum íbúum tækin til að flýta því með þeim hætti sem lagt er til í þessu máli?
Ég aftur á móti vil nefna vegna andsvars hv. þingmanns: Viðkvæmnin er yfir því hvers vegna við förum í gjaldtöku á íbúum við þessa vegi. Það er viðkvæmi þátturinn sem ég vil líka ræða. Af hverju á íbúi við Skógarstrandarveg að greiða veggjald til að keyra að heiman og heim? Það er aftur á móti í mínum huga vel hægt að komast áfram með að útfæra það með þeim hætti sem almennar reglur gilda um slíkar gjaldtökur og við þekktum t.d. með Hvalfjarðargöng, að menn settu það ekki fyrir sig miðað við þann ávinning sem menn höfðu af því að fá flýtingu framkvæmdarinnar. Við þekkjum dæmi um, og það hefur komið upp á þeim fundum sem ég hef haldið um þetta mál sérstaklega, gríðarlegan viðhaldskostnað fólks af bifreiðum þar sem mjög dýrir bílar eru nánast ónýtir eftir mjög stuttan tíma af því fólkið hefur ekki annan kost en að nota þennan ónýta veg. En gjaldtaka af umferð segi ég, virðulegur forseti, er raunverulega komin á þann stað að við getum rætt um notendagjöld og í þessu tilfelli eru þetta tærustu flýtigjöld sem boðið er upp á í umræðu um innheimtu veggjalda í samgöngum á Íslandi í dag.