Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:43]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Landsbyggðarskattur, gjaldtaka, í þessari hugsun er veggjaldainnheimta af öllum sem fara um veginn, líka íbúunum, það tók ég fram. Við höfum aftur á móti ákveðnar hugmyndir eða þekkingu á því, t.d. Hvalfjarðargöng meðan við stunduðum innheimtu þar, þar sem íbúar eða stórnotendur nutu ákveðinna kjara. Það leiðir okkur síðan að umræðunni um hverjir raunverulega fjármagna viðkomandi framkvæmdir. Það eru fyrst og fremst ferðamenn sem það gera. Varðandi forgangsröðunina þá vísa ég einfaldlega til þess í frumvarpinu að vegur sé á samgönguáætlun. Ég er að leggja til að ríkið geti gert samning um alla fjárhæðina eða hluta af þeirri fjárhæð á því ári sem þingið hefur samþykkt að leggja til peninga, þ.e. vegur sem er á samgönguáætlun 2030 komi þá til framkvæmda 2030. Hvort hann fari fram fyrir aðrar PPP-framkvæmdir er bara allt önnur umræða og er þá fyrst og fremst á forsendum þeirra sem eru að undirbúa slíkar framkvæmdir (Forseti hringir.) eða þeirra fyrirtækjasjóða sem hafa áhuga á að fjárfesta í þeim. Ég tel að ríkisvaldið þurfi ekki að skipta sér af því á nokkurn hátt.