samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég sagði einhvern tímann í gríni, þótt það sé kannski ekki fallegt í þessu samhengi, að Vegagerðin ætti helst að spara sér vinnuna og keyra með risastóra berjatínu meðfram Vatnsnesvegi að hausti og tína upp Suzuki Jimny-bílana sem hefðu skoppað út af veginum það sumarið. Það er mikið á sig leggjandi til að koma þessum vegum til betra horfs. Af því að hv. þingmaður nefnir veg í kjördæmi okkar beggja, Skógarstrandarveginn, þá leyfi ég mér að fullyrða að umferð um Skógarstrandarveginn er eins lítil og hún mögulega getur verið. Það fer eiginlega enginn um Skógarstrandarveginn í dag nema hann raunverulega þurfi þess; ástand vegarins er svo slæmt og áhrifin á ökutæki og umferðaröryggi þess sem um veginn fer eru með þeim hætti að þetta er ekki vegur sem fólk fer bara til að fara í bíltúr. Svona er þetta auðvitað víða um landið; arfaslakir tengivegir og safnvegir sem við þurfum að finna leið til að komast hraðar áfram með. Þetta atriði sem snýr að minnkuðum kröfum þar sem umferð er takmörkuð verður auðvitað að skoðast í einhverju heildarsamhengi, því að umferðaröryggi á vegunum eins og þeir eru í dag er eins lítið og það mögulega getur verið. Ég tel alveg forsvaranlegt að skoða hvort það sé hægt að fara einhvern milliveg milli þess ástands sem er í dag og þess að fara upp í veg samkvæmt fullum staðli. Þar á milli held ég að sé oft á tíðum framkvæmdaleg lausn sem er ódýrari og hagkvæmari en að fara upp í fullan staðal og gerir það að verkum að mögulega verður eitthvað gert fyrir vegarkaflann í stað þess að hann verði í núverandi ástandi um langa framtíð.
Ég þakka fyrir umræðuna sem hér á sér stað og ég held að hún sé mikilvægt púsl inn í þessa mynd sem við verðum að takast á við hvað vegamál á landsbyggðinni varðar.