Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

[16:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns og málshefjanda, Berglindar Óskar Guðmundsdóttur, og fyrir góðar ræður hv. þingmanna. Við getum auðvitað rætt þetta lengur hér og miklu oftar, það blasir við. Það er rétt að þunglyndislyf sem við höfum rætt aðeins í þessari umræðu eru notuð meira hér á landi en víðast annars staðar en mér fannst athyglisvert það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom að: Er það raunverulegur vandi? Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er erfitt að svara því. Mögulega erum við bara að gera vel. Hverjar eru ávísunarvenjurnar og hver er samanburðurinn? Þetta þarf að skoða. Það er þversögn í því þegar við skoðum langa lista og bið eftir greiningum. Það kom mjög skýrt fram hér í góðum ræðum að við þurfum að horfa á samfélagsgerðina og þjóðfélagið, hvernig það er byggt upp, hvernig það er skipulagt, hvernig við erum frá vöggu til grafar að fara í gegnum samfélagið á miklum hraða, það eru miklar breytingar og auknar kröfur á ungt fólk o.s.frv. Þetta er fjölþætt viðfangsefni, það finnst mér algjörlega blasa við af þessari umræðu.

Ég vil aðeins bregðast við því að ekkert hafi verið gert og auðvitað þarf maður að meta stöðuna. Öllu jafna er heilbrigðisþjónusta þess eðlis að hún skilar ábata seinna meir. Það á við um þetta mál eins og öll önnur mál á sviði heilbrigðisþjónustu. Á síðustu fimm árum hefur sannarlega verið sett aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustu. Það er búið að efla heilsugæsluna, geðheilsuteymin. Hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom inn á samning við sálfræðinga (Forseti hringir.) og það er opinn samningur af hálfu SÍ við sálfræðinga. Þeir eru ekki alveg sáttir við hann. Ég hef tekið fund með þeim (Forseti hringir.) og það er mjög mikilvægt að nýta þessar 250 milljónir sem liggja til fyrir notkun. Þetta geta verið 10.000–12.000 skipti fyrir fólk sem hefur ekki tekjur til, (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður kom inn á. Mér er mikið í mun að í samvinnu við sálfræðinga getum við farið að nýta þessa tölu.