Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ég vona að ég sé nú búinn að svara henni að mestu í formi svara til hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um áherslurnar innan stjórnarflokkanna. Ég get ekki alveg svarað til um það því að ég verð að sjá og heyra hvað öðrum finnst um akkúrat þessa tillögu en rétt er það, sem hv. þingmaður kom inn á, að það var val okkar að draga fram okkar pólitísku sýn í þessu máli með sérstöku þingmáli sem er þá hér til umræðu. Þannig að ég held bara áfram að hlusta og fylgjast vel með. Ég vil þó kannski benda á að þessi stefnumótunarvinna, sem sannarlega er kveðið á um í stjórnarsáttmála þessara þriggja flokka, ég veit ekki betur en við væntum niðurstöðu starfshóps í því máli fyrr en síðar en eitthvað hefur nú seinkað útgáfunni á því. Ráðherrann er sannarlega með frumvarp um þessi mál á þingmálaskrá vorsins þannig að það hillir nú undir að við getum tekið hér grundvallandi umræðu um þessa afstöðu.

Varðandi seinni spurninguna þá skal ég koma inn á það í síðara svari.