Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Gott og vel, ef við eigum að ræða þetta út frá skattalegum forsendum. Hins vegar er tilfinning manns sú, og ég veit að ég er ekki einn um þá sýn eða skoðun, að það virðist einhvern veginn seint og um síðir og stundum bara eiginlega aldrei vera neitt svigrúm yfir höfuð til einhverra skattahækkana eða að burðirnir séu orðnir nægilega miklir til að hægt sé að treysta og tryggja að það sé þá sannarlega greitt sanngjarnt afgjald af nýtingu, sem ég fer ekki ofan af að er eitthvað sem við eigum sameiginlega. Og þetta er gömul saga og ný. Með fullri virðingu, hv. þingmaður, af því að við erum í ólíkum pólitískum flokkum, þá hefur flokkur hv. þingmanns ekkert verið sérstaklega spenntur fyrir skattahækkunum, svo að það sé sagt.