153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

skaðaminnkandi úrræði og afglæpavæðing neysluskammta.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta kallar alltaf á mjög fjölbreytt úrræði. Við þekkjum þessa umræðu um húsnæði fyrst, þetta snýr að því að fá þak yfir höfuðið. Við eigum í samtali við Reykjavíkurborg m.a. um þann þátt. Síðan leystum við á síðasta kjörtímabili þetta með bíl fyrir neyslurýmin og við viljum fá það á fastan stað. Þá horfum við m.a. til þess að útvíkka þetta og horfa til þess hvernig reyndin hefur verið erlendis. Þannig að þetta er allt til skoðunar.

Það sem ég tala um eru þessi jákvæðu skref sem hafa verið tekin og hvað varðar viðhaldsmeðferðina get ég bætt við naloxóne-nefúðanum sem var tekinn hér til notkunar og við höfum líka sett aukna fjármuni í rekstur neyslurýmisins. (Forseti hringir.) Við höldum áfram að taka heildstætt utan um þennan hóp. Þetta er þannig verkefni. Það er ekkert hik (Forseti hringir.) en við þurfum hins vegar að eiga í samtali við fjölmarga aðila í kerfinu til að ná heildstætt utan um þennan málaflokk.