Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn.

104. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir velvilja í garð þessarar tillögu. Ég tek undir það sem hún sagði, að það er margs konar annar kostnaður sem fellur til. Nú var sú sem hér stendur búsett á Vestfjörðum og þurfti að fara í fjölmargar ferðir til höfuðborgarinnar, til sérfræðinga, vegna tanna barna þannig að mér kunnugt um þann mikla ójöfnuð sem þar var, að hafa ekki þennan sérfræðing í heimabyggð. Það þarf að styrkja heilbrigðiskerfið allt. En við þurfum að taka tennurnar inn. Það er mjög skrýtið að við höfum tekið ákvörðun um að hafa tennur einhvern veginn til hliðar við líkama þegar kemur að kostnaðarþátttöku. Tennur og hugur þurfa að komast inn í sjúkratryggingakostnaðinn okkar. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það.