153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn fátækt.

[10:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Auðvitað fögnum við velgengni útgerðarinnar eins og allra fyrirtækja í landinu. En fögnum líka velsæld alls fólks, við þurfum að stuðla að henni. Það er gott að einhver áform eru uppi um að skoða eitthvað í ráðuneytunum, en það gerist ekkert með því að snúa blinda auganu að stórkostlegum arðgreiðslum út úr einni grein sem byggist á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Á sama ári og eigendur eins fyrirtækis greiða sér nærri 6 milljarða arð búa 10.000 börn við fátækt, heilbrigðiskerfið er í verulegum vanda, lífeyristakar neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og húsnæðisvandinn er alltumlykjandi. Á þessu sama ári og 6 milljarðar fara til eiganda eins fyrirtækis eru biðlistar eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu lengri en nokkru sinni og meira að segja biðlistar eftir því að komast í fangelsi til að afplána dóma sem svo fyrnast vegna skorts á fangarýmum.

Hæstv. forsætisráðherra, með auknum ójöfnuði í dag í boði ríkisstjórnarinnar minnkar hagsæld okkar allra. (Forseti hringir.) Það er staðreynd og það verður að bregðast við núna en ekki í lok þessa kjörtímabils eða á því næsta.