153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni öðru sinni fyrir andsvarið. Nú er það svo að löggjöfin á Norðurlöndunum er ekki öll eins. Framkvæmdin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er ekki eins milli landanna og er heldur ekki eins og á Íslandi eða annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta veit hv. þingmaður enda fórum við og heimsóttum tvö af þessum ríkjum og höfum fengið upplýsingar frá öðrum ríkjum, þannig að það er erfitt að segja hvaða línu við eigum að fylgja þar. Ég var þó hlynntari því sem verið var að gera í Noregi en í Danmörku.

Talandi um systurflokka þá hefur Samfylkingin, fulltrúar hennar og forsvarsmenn Samfylkingarinnar, auðvitað mótmælt stefnu danskra jafnaðarmanna, danskra sósíaldemókrata, árum saman, enda fóru þau verulega af leið. Það er álit margra sem eru sósíaldemókratar í Skandinavíu að Danirnir hafi farið af leið, enda var okkur mörgum mjög brugðið þegar við fórum og heimsóttum danska þingið í ferðalagi nefndarinnar. Þannig er það bara. (BHar: En hvað með endursendingarbúðir?) Með endursendingarbúðir? Það er ekkert verið að ræða það hér. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að ræða neinar lausnir hér. (Forseti hringir.) Það er fullt af óframkvæmanlegum hlutum í þessu frumvarpi sem þið vitið ekkert hvernig þið ætlið að hantera. (Gripið fram í: Heyr, heyr)