153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, við erum í raunveruleikanum. Það er blákaldur raunveruleiki fólks að vera á flótta og það er raunveruleiki sem það er að takast á við á hverjum degi árum saman, stundum áratugum saman, að eiga sér hvergi skjól. Það er blákaldur raunveruleiki. Það er hreint ekkert leikhús. Við getum einfaldað kerfið með því t.d. að auðvelda fólki sem hér er í umsóknarferli að fá bráðabirgðaatvinnuleyfi. Þannig var það einu sinni. Það vantar hér vinnandi hendur.

Einu sinni var það þannig að ef þú gast fengið vinnu, þá fékkstu bráðabirgðaatvinnuleyfi og þar með varstu kominn af framfærslu hins opinbera. Það gerðist sjálfkrafa. Við getum líka horft á það þannig að við getum veitt fleirum mannúðardvalarleyfi í staðinn fyrir vernd. Það er líka ódýrara fyrir ríkissjóð. Langsamlega flestir sem hingað koma vilja bara fá að vinna, vilja sjá fjölskyldu sinni farborða. (Forseti hringir.) Vilja bara fá þetta skjól en vilja ekki leggjast upp á ríkið.