153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ekki í eitt einasta skipti hefur hæstv. félagsmálaráðherra mætt í þingsal til að taka þátt í umræðu um málaflokk sem þó heyrir að hluta til undir hann. Ekki í eitt einasta skipti hefur hann þorað að koma hingað þrátt fyrir ítrekuð áköll okkar frá því í október um að eiga orðastað við ráðherra sem fer að hluta með málaflokk þann sem við erum hér að greiða atkvæði um í kvöld. Orð hans hér í pontu í atkvæðagreiðslu skipta engu máli gegn skýrum stuðningi Vinstri grænna, þar á meðal hæstv. félagsmálaráðherra, við þetta frumvarp sem skerðir réttindi fólks í leit að vernd á Íslandi. Til hamingju, Vinstri græn, til hamingju, Framsóknarflokkur, til hamingju Framsóknarfólk með það að hafa nú gert stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum fólks á flótta að ykkar. Ykkar gildi falla saman. Ykkar rætur liggja greinilega saman. Þessir flokkar eru orðnir eins þó að Vinstri græn og Framsókn reyni að skreyta sig með mannúð á tyllidögum.

(Forseti (BÁ): Þingmaðurinn segir?)

Þingmaðurinn segir nei.